Erlent

Powell talar um ráðherraárin

Hann var þekktasti og einn valdamesti blökkumaður Bandaríkjanna, utanríkisráðherra sem virtist í andstöðu við eigin stjórn. Colin Powell lét af embætti fyrir mánuði og nú virðist hann reiðubúinn að tala út - en þó ekki um allt. Hermaðurinn Powell mun ekki tala. Þegar Colin Powell lét af embætti utanríkisráðherra var gengið að því sem gefnu að hann myndi aldrei opinberlega ræða árin fjögur í embættinu. En í dag birtist viðtal við hann í bresku blaði þar sem hann ræðir margt af því sem brann á honum. Kvitturinn í Washington er á þá leið að Powell sé svekktur, ekki bara með stefnu stjórnarinnar í mörgum málum heldur líka að Bush forseti skildi þiggja boðið þegar hann bauðst til að láta af embætti. Enn verra, segir sagan, er að erkióvinur hans, Donald Rumsfeld, sitji sem fastast. Powell segir til dæmis að fleiri hermenn hefði þurft í Írak í kjölfar stríðsins til að takast á við ringulreiðina og skálmöldina sem tók við. Stríðið sjálft hafi verið skipulagt af snilld en því sem fylgdi í kjölfarið hafi verið klúðrað. Hann segist hafa varað yfirmenn sína - þ.e. Bush forseta - við því að erfiðleikarnir myndu fyrst hefjast að loknu stríði, því að Írak væri eins og kristalskúla sem splundraðist og það væri vandamál Bandaríkjanna að hreinsa til. Þess vegna hafi hann leitað nýrrar ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna áður en stríðið hófst. Powell segir einnig ljóst að sættast verði við Evrópu á ný því án samvinnu við hana gangi ekki neitt. Bandaríkin þurfi að stórbæta ímynd sína í álfunni. En það er líka áhugavert hvað Powell vill ekki ræða í viðtalinu: hann vill ekki lýsa skoðun sinni á þeirri stefnu sem fylgt er í Hvíta húsinu, og hann vill ekki bera saman George Bush og aðra forseta sem hann þjónaði - þar á meðal Bush eldri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×