Erlent

Föngunum ekki sleppt

Þeim 400 palestínsku föngum sem eru í ísraelskum fangelsum, og átti að sleppa áður en langt um liði, verður ekki gefið frelsi vegna sjálfsmorðsárásarinnar í Tel Aviv á föstudagskvöld sem kostaði fjóra Ísraela lífið. 500 palestínskum föngum sem verið hafa í haldi í Ísrael var sleppt fyrir tæpri viku. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, sagði það gert til þess að koma enn frekari skriði á friðarferlið sem tekið hefur mikinn kipp undanfarið. Dómsmálaráðherra Ísraels lét hins vegar hafa eftir sér í dag að hinum föngunum 400 verði ekki sleppt á næstunni. Frelsun fanganna er mjög mikilvæg fyrir Mahmoud Abbas, nýkjörinn leiðtoga Palestínu, þar sem hún er grundvallarforsenda þess að honum takist að friðþægja herskáa Palestínumenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×