Erlent

Hryðjuverkasveitum verði útrýmt

Ariel Sharon vill að Palestínumenn útrými hryðjuverkasveitum í eitt skipti fyrir öll. Annars sér hann engan tilgang í viðræðum og segir Ísraelsmenn þá verða að grípa til aðgerða. Tilgangur íslamska Jihad með árásinni á föstudag var að eyðileggja friðarferlið og svo virðist sem þeim gæti hafa orðið nokkuð ágengt. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, var þungur á brún og hvass í orðavali þegar hann hitti ríkisstjórn sína í dag. Hann sagði engan pólitískan árangur verða fyrr en Palestínumen hefji herferð gegn hryðjuverkahópunum og skipulagi þeirra á landsvæði Palestínumanna. „Undanfarið hefur Ísrael fylgt agaðri stefnu til að stuðla að framförum en það er ljóst að ef ákveðnar aðgerðir Palestínumanna gegn hryðjuverkum hefjast ekki fljótlega neyðist Ísrael til að auka hernaðaraðgerðir sínar til að verja íbúa ríkisins,“ sagði Sharon. Hann taldi víst að það hefði verið íslamska Jihad í Sýrlandi sem skipulagði árásina og þar með um leið að stjórnvöld í Damaskus hefðu lagt blessun sína yfir hana, en því neita ráðamenn í Sýrlandi. Viðbrögð Ahmeds Queria, forsætisráðherra Palestínu, benda til þess að samskipti stjórnvalda séu stirð eftir árásina. Hann sagði að ef Ísraelsmenn ákveði að slíta sambandi sínu við Palestínumenn sé það þeirra val. „Við skiptum okkur ekki af eða grátum slíka ákvörðun. En við segjum að möguleikarnir opnuðust í Sharm el-Sheik og við verðum að þróa þá áfram og leggja okkur fram,“ sagði Qureia.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×