Erlent

Brottflutningur hefst innan skamms

Stjórnvöld Sýrlands og Líbanons náðu samkomulagi í dag um að Sýrlendingar hefji brottflutning hersveita sinna frá Líbanon þegar í þessum mánuði. Forsetar ríkjanna, Bashar al-Assad og Emil Lahoud, hittust á fundi í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, í dag. Samkvæmt samkomulaginu hefjast brottflutningar herliðsins frá Mið og Norður-Líbanon til austurhéraðanna við landamæri Sýrlands. Þetta verða stærstu herflutningar Sýrlendinga síðan þeir blönduðu sér í borgarastríðið í Líbanon fyrir tæpum 30 árum. Nú eru 14 þúsund sýrlenskir hermenn í landinu en voru 40 þúsund þegar mest lét. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa krafist þess að Sýrlendingar dragi herlið sitt alfarið úr landinu en forsetar ríkjanna tveggja segja að í samkomulaginu sé ekki kveðið nánar á um hvenær hersveitirnar fari að fullu út úr landinu. Kanslari Þýskalands og forseti Frakklands tóku undir kröfu Bandaríkjamanna í dag. Kröfur Líbana um brottnám sýrlenska hersins hafa orðið æ háværari eftir að Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, var ráðinn af dögum um miðjan síðasta mánuð. Sýrlensk stjórnvöld eru sökuð um að hafa staðið á bak við tilræðið en þau neita því staðfastlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×