Erlent

Hryðjuverkamönnum sleppt úr haldi

Yfirvöld í Bretlandi hafa þegar neyðst til þess að sleppa úr haldi meintum hryðjuverkamanni og líklegt er að sleppa verði átta til viðbótar þar sem ný lög gegn hryðjuverkum hafa ekki enn fengist samþykkt á breska þinginu. Meðal þeirra sem verður líklega sleppt og setið hefur í gæsluvarðhaldi í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 er andlegur lærifaðir Mohammeds Atta, leiðtoga flugræninganna sem skipulögðu árásirnar. Enn hefur ekki tekist að ná sátt um frumvarpið, þrátt fyrir deilur í alla nótt. Lávarðadeildin, þar sem íhaldsmenn eru í meirihluta, hafnaði frumvarpinu seint í gærkvöldi. Frumvarpið fór þá á nýjan leik til neðri deildarinnar sem samþykkti það aftur með breyttu sniði. Lávarðadeildin hafnaði frumvarpinu síðan aftur skömmu eftir miðnætti. Svona gekk þetta fram og til baka og alls hafnaði Lávarðadeildin frumvarpinu fjórum sinnum með breytingartillögum. Aðalágreingsefnið er hvort frumvarpið skuli gilda til frambúðar eða hvort það eigi aðeins að gilda tímabundið, eins og fulltrúar Lávarðadeildar leggja til. Lávarðadeildin mun enn á ný taka málið til umfjöllunar þegar líða fer á morguninn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×