Erlent

Sameiginleg stefna BNA og Evrópu

Verðlaun eru í boði hætti Íranar auðgun úrans. Bandaríkjamenn og Evrópuþjóðir hafa náð samkomulagi um sameiginlega stefnu en Íranar láta sig það litlu skipta. Stefnubreyting er orðin hjá Bandaríkjastjórn í samskiptum við Íran en Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir samkomulag í burðarliðnum um sameiginlega stefnu Bandaríkjanna og Evrópuþjóða um viðbrögð við kjarnorkuáætlun Írans. Stjórnvöld í Bandaríkjunum ætla að bjóða Írönum efnahagsaðstoð, gegn því að þeir hætti auðgun úrans. Meðal gulrótanna sem boðnar verða eru aðild að heimsviðskiptastofnuninni auk þess sem Írönum yrði heimilað að kaupa varahluti í flugvélar. Til að koma til móts við Bandaríkjamenn hyggjast Evrópuþjóðir, með Frakka, Þjóðverja og Breta í fararbroddi, vísa málum Írans til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna, ef ekki tekst að semja við Írana um að þeir hætti með öllu auðgun úrans sem nota má í kjarnorkuvopn. Utanríkisráðherra landsins sagði í morgun að Íranar vildu leysa deiluna án átaka en að ekki kæmi til greina að hætta úranaugðun. Fram til þessa hafa Bandaríkjamenn ekki viljað verðlauna Írana með neinum hætti fyrir að fara að kröfum alþjóðasamfélagsins um að hætta þróun kjarnorkuvopna en Evrópuþjóðir hafa reynt samningaleiðina. Þetta hefur leitt til nokkurrar spennu og ósamræmis sem Íranar hafa reynt að notfæra sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×