Innlent

Hafís rekur hratt til lands

"Ég hef búið hér alla mína ævi og man ekki eftir jafnmiklum hafís og nú er hér í kring," segir Hulda Signý Gylfadóttir, leiðbeinandi að Sólbrekku í Grímsey. Mikinn hafís hefur rekið að landi fyrir vestan og norðan síðustu daga og gera veðurspár ráð fyrir áframhaldandi sterkum norðanáttum næstu daga. Hulda Signý segir hafísinn hafa nálgast með talsverðum hraða og aðeins á einni nóttu náð að umlykja eynna. "Á föstudagskvöldið sást ísbrúnin aðeins í fjarska en nú er eyjan svo að segja í greipum íssins. Það eru ísspangir á nokkrum stöðum og íshröngl í öllum fjörum og ég persónulega man ekki eftir þetta miklum ís hér við strendur síðustu áratugi þó að hér áður fyrr hafi slíkt gerst nokkuð reglulega." Að sögn skipstjóra Sæfara sem siglir meðal annars milli Dalvíkur og Grímseyjar nálgaðist ísinn land um eina sjómílu á hverri klukkustund í fyrrinótt og lítið hefur dregið úr vindstyrk síðan þá. Oddviti Grímseyjarhrepps, Óttar Þór Jóhannsson, segir íbúa hafa áhyggjur af þróun mála en heimamenn séu klárir að girða fyrir höfnina breytist vindátt. "Ég hef fylgst vel með síðustu klukkustundirnar og mér sýnist ísinn vera laus í sér og molnar auðveldlega þegar nær dregur landi. Þetta er mestmegnis íshrögl umhverfis Grímsey en vissulega má sjá stærri jaka inn á milli og allur er varinn góður."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×