Erlent

Ísraelar skipuleggja árás á Íran

Ísraelsmenn hafa gengið frá leynilegum áætlunum um árásir á Íran, hætti Íranar ekki auðgun úrans og tryggi að ekki séu framleidd kjarnorkuvopn í landinu. Breska blaðið Sunday Times greinir frá þessu og segir að ríkisstjórn Ariels Sharons hafi samþykkt áætlunina á fundi í síðasta mánuði. Áætlunin er sögð gera ráð fyrir því að sérsveitir ísraelska hersins gera árás frá landi og F-15 orustuþotur varpi öflugum sprengjum á Natanz, úranauðgunarver Írana. Blaðamaður Times fullyrðir að ísraelskir ráðamenn hafi rætt hugmyndir sínar við stjórnvöld í Bandaríkjunum og að þar hafi þeir fengið fyrirheit þess efnis að ekki yrði staðið í vegi fyrir hernaðaraðgerðum Ísraels gegn Íran, hefðu öll önnur ráð verið reynd fyrst. Í vikunni tilkynntu Bandaríkjamenn að þeir ætluðu að taka höndum saman við Evrópuþjóðir um sameiginlega stefnu gegn Íran og buðu þeim ívilnanir gegn því að auðgun úrans yrði hætt. Íranar vísuðu tilboðinu á bug þó að Khatami, forseti landsins, segi að auðgun úrans hafi verið hætt í bili. Ísraelsmenn tóku málamiðlunum og viðræðum við Írana heldur fálega og Silvan Shalom, utanríkisráðherra Ísraels, sagði það stórslys ef Íranar kæmust yfir kjarnorkuvopn, ekki einungis fyrir Ísrael heldur heimsbyggðina. Talsmenn Bandaríkjastjórnar hafa tekið í sama streng og varað Írana við því að harðra aðgerða væri verið að vænta tækju þeir ekki tilboðinu sem kynnt var í vikunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×