Innlent

Bæjarstjóri bíður með brosið

"Ég bíð með brosið þangað til ráðherra tilkynnir þetta formlega á laugardaginn kemur," segir Runólfur Birgisson, bæjarstjóri á Siglufirði. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur boðað til fundar í bænum um helgina þar sem vonir standa til að hann tilkynni hvenær framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hefjist formlega. Gangagerðinni var frestað á sínum tíma vegna ótta við þensluáhrif vegna stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi en ekki þykir lengur hætta á slíku enda aðeins tvö til þrjú ár áður en þeim framkvæmdum lýkur. Héðinsfjarðargöngin eru rúmlega tíu kílómetra löng og eru íbúar svæðisins almennt sammála um nauðsyn slíkra ganga. Runólfur segir fyrir liggja að þó að kostnaður við göngin sé áætlaður sex milljarðar króna þá sé enginn vafi í sínum huga að byggðir norðanlands eflist til mikilla muna með göngum. "Það er óumdeilt í mínum huga að ávinningurinn verður mikill. Þegar liggur fyrir að Siglufjörður og Ólafsfjörður rugli reytum sínum saman hvað varðar stjórnsýslu og ýmislegt annað eftir að göngin eru komin. Þannig sparast strax miklir fjármunir auk þess sem ferðaþjónustan hér ætti að njóta góðs af." Ekki náðist í samgönguráðherra vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×