Erlent

Vilja starfa með nýrri stjórn

Stjórnvöld í Rússlandi segjast reiðubúin að starfa með nýrri stjórn í Kirgistan og jafnframt að fyrrverandi forseti landsins gæti fengið hæli í Rússlandi.  Stjórnarandstaðan í Kirgistan hefur tilnefnt nýjan forseta og virðist hafa tekið við stjórnartaumunum um allt land. Stjórnarbylting var gerð í Kirgistan í gær þegar andstæðingar forsetans risu upp í miklum mótmælum og hrifsuðu völdin. Ekki er vitað hvar forsetinn fyrrverandi heldur sig en hann virðist hafa flúið land, hugsanlega til nágrannaríkisins Kasakstan, með fjölskyldu sinni. Pútín Rússlandsforseti lýsti því yfir fyrir stundu að hann myndi veita forsetanum hæli ef hann leitaði til Rússlands og, það sem meira er og mikilvægara fyrir nýju valdhafana í Kirgistan, Pútín lagðist ekki á móti nýju stjórninni, sagðist þekkja þetta fólk vel og lýsti því yfir að honum væri mikið í mun að halda góðum samskiptum við landið. Fréttaskýrendur eru á einu máli um að ástæður þess að Pútín tekur svona vel í þessi umskipti séu að miklu leyti þær að ólíkt nýjum valdhöfum í Georgíu og Úkraínu hefur nýja stjórnin í Kirgistan ekki sýnt nein merki þess að reyna að komast undan áhrifavaldi Rússlands og leita í faðm Vesturlanda. Mikil ofbeldisalda fylgdi valdaskiptunum í gær; að minnsta kosti þrír létust í átökum í nótt, byggingar voru brenndar og ræningjar og þjófar léku lausum hala. Svo virðist hins vegar sem aðstæður hafi batnað til muna í dag og nú er allt með kyrrum kjörum í höfuðborginni, Bishkek.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×