Innlent

Ráðist gegn ókeypis leikskóla

Formanni borgarráðs, Alfreð Þorsteinssyni, líst illa á hugmyndir fjármálaráðherra um að fasteignagjöld af opinberum byggingum renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Geir Haarde fjármálaráðherra lýsti þeirri skoðun sinni í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á miðvikudaginn að til greina kæmi að fasteignagjöld af opinberum byggingum rynnu í jöfnunarsjóð. Alfreð Þorsteinsson telur að sú ráðstöfun muni kippa stoðunum undan hugmyndum um gjaldfrjálsan leikskóla. "Ég er undrandi á viðbrögðum fjármálaráðherra því að samkomulagið sem gert var á milli ríkisins og sveitarfélaganna um tekjustofna var ekki skilyrt að neinu leyti og því ekki á valdi sjálfstæðismanna að segja til um það hvernig einstök sveitarfélög og þar með talið Reykjavíkurborg ráðstafi sínum tekjum," segir Alfreð. Alfreð bendir á að flokkarnir sem standa að Reykjavíkurlistanum séu sammála um að stefna beri að gjaldfrjálsum leikskóla. "Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að hindra efndir á samkomulaginu sýnist mér vera kominn upp ágreiningur á milli stjórnarflokkanna."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×