Erlent

Ísrael: Fresta afhendingu yfirráða

Ísraelsmenn munu ekki afhenda Palestínumönnum yfirráð yfir þriðja bænum á Vesturbakkanum í þessari viku, eins og ákveðið hafði verið. Samkvæmt samkomulagi sem náðist á milli ísraelskra og palestínskra stjórnvalda í byrjun febrúar eiga Palestínumenn að fá yfirráð yfir fimm borgum og bæjum á Vesturbakkanum á næstu vikum og mánuðum. Ísraelsmenn afhentu þeim stjórnartaumana í Jeriko og Tulkarm á dögunum, nokkru eftir að fyrirhuguð valdaskipti áttu að fara fram. Stjórnvöld í Ísrael ætluðu svo að draga herlið sitt frá bænum Qalqilya á allra næstu dögum en að sögn ísraelskrar útvarpsstöðvar lýsti varnarmálaráðherra Ísraels, Shaul Mofaz, því yfir í dag að af því yrði ekki vegna þess að Palestínumenn hefðu ekki staðið við loforð sitt um að gera upptæk vopn í eigu palestínskra skæruliða, sem sakaðir eru um að hafa staðið fyrir árásum á Ísraelsmenn að undanförnu. Talsmaður stjórnvalda í Palestínu segir engin haldbær rök vera fyrir því að Ísraelsmenn geti frestað því að draga herlið sitt út úr Qalqilya, en kveðst hins vegar ekki hafa fengið staðfestingu á ummælum ráðherrans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×