Innlent

Stjórnarnefnd NATO-þingsins fundar

Stjórnarnefnd NATO-þingsins mun halda fund hér á landi um helgina. Fundurinn verður haldinn á Hótel Nordica laugardaginn 2. apríl. Sunnudaginn 3. apríl verður fundarmönnum boðið í kynnisferð um Snæfellsnes. Alls er búist við um 100 þátttakendum, bæði þingmönnum og starfsmönnum þjóðþinga aðildarríkjanna, auk embættismanna NATO-þingsins. Stjórnarnefndin er skipuð formönnum landsdeilda aðildarríkjanna 26, auk formanna málefnanefnda og forsætisnefndar NATO-þingsins. Nefndin kemur saman til fundar þrisvar sinnum á ári; í tengslum við vorþing NATO-þingsins, í tengslum við ársfund þess að hausti og einu sinni snemma vors í einu aðildarríkja NATO. Síðast var efnt til stjórnarnefndarfundar hér á landi árið 1997. Forseti NATO-þingsins er franski þingmaðurinn Pierre Lellouche. Hann tók við embættinu af bandaríska þingmanninum Douglas Bereuter á ársfundi NATO-þingsins í Feneyjum í nóvember á síðasta ári. Bretinn Simon Lunn er framkvæmdastjóri þingsins. Guðmundur Árni Stefánsson, formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, og Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður hennar, sitja fundinn af hálfu Íslandsdeildarinnar. Auk þeirra er Magnús Stefánsson fulltrúi í Íslandsdeildinni. Ritari Íslandsdeildar er Andri Lúthersson. Fundur stjórnarnefndarinnar laugardaginn 2. apríl er lokaður en nefndin fjallar eingöngu um innri málefni þingsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×