Innlent

Meirihlutasamstarfið í hættu

Meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar - græns Framboðs í sveitarstjórn Skagafjarðar er í hættu. Þar er komin upp pattstaða eftir að einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hætti þátttöku í meirihlutasamstarfinu. Fréttastofan greindi frá því í gær að Bjarni Maronsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn, hafi hætt þátttöku í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Vinstri - grænna vegna trúnaðarbrests sem hann segir hafa komið upp á milli hans og Gísla Gunnarssonar, forseta sveitarstjórnar Skagafjarðar. Gísli vísaði Bjarna af fundi og kallaði til varamann þar sem hann taldi Bjarna vanhæfan við afgreiðslu máls innan sveitarstjórnarinnar. Bjarni fer nú með oddaatkvæði í sveitarstjórninni þar sem jafnmargir sveitarstjórnarmenn eru í meirihluta og minnihluta, fjórir í hvorri fylkingu, auk Bjarna. Ásdís Guðmundsdóttir, fulltrúi sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Skagafjarðar, segist túlka það þannig að Bjarni sé að slíta meirihlutasamstarfinu og að næstu skref séu í höndum hans. Bjarni segir hins vegar að næstu skref séu í höndum Gísla Gunnarssonar, forseta sveitarstjórnar, en hann verður erlendis fram yfir helgi og því er ljóst að áfram ríki óvissa um meirihlutasamstarfið í sveitarstjórn Skagafjarðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×