Innlent

Meirihlutinn óstarfhæfur

Meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar er óstarfhæfur eftir að Bjarni Maronsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir að upp væri kominn trúnaðarbrestur milli sín og forseta sveitarstjórnar, Gísla Gunnarssonar Sjálfstæðisflokki. Bjarni gegnir því oddastöðu í sveitarstjórn þar sem auk hans eru fjórir fulltrúar í meirihluta Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna, sem eru jafnmargir og í minnihluta. Bjarni segist ekki treysta sér til þess að styðja Gísla áfram sem forseta sveitarstjórnar. "Aðdragandi málsins er sá að á síðasta sveitarstjórnarfundi, síðastliðinn fimmtudag, tók Gísli einn þá ákvörðun að vísa mér af fundi vegna meints vanhæfis og kallaði til varamann minn við afgreiðslu máls. Þar tel ég að hann hafi misbeitt valdi sínu því honum bar að bera tillögu sína undir fundinn," segir Bjarni. Málið sem fjalla átti um varðaði tengingu Þverafellsvegar við Sauðárkrók. Gísli taldi Bjarna vanhæfan til þess að fjalla um málið vegna þess að nálægt vegstæðinu eru fyrirtæki sem tengjast Kaupfélagi Skagfirðinga, en Bjarni er í stjórn þess fyrirtækis. Bjarni segir að meirihlutinn sé óvirkur. "Gísli hlýtur að eiga næsta leik í þessu máli, því hann ber ábyrgð á ástandinu," segir Bjarni. Ársæll Guðmundsson sveitarstjóri í Skagafirði vildi ekki tjá sig um málið. Ekki náðist í Gísla, sem staddur er í útlöndum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×