Erlent

Mótmæli Kínverja breiðast hratt út

Mótmæli Kínverja gegn Japönum breiðast hratt út og þúsundir héldu áfram að mótmæla í dag víðsvegar í Kína. Aðsetur japanskra fyrirtækja eru grýtt og japanski fáninn brenndur. Japanar heimta afsökunarbeiðni. Kínverskir mótmælendur grýttu í gær japanska sendiráðið í Peking, höfuðborg Kína. Mikil reiði blossaði upp í kjölfar þess að út kom ný japönsk kennslubók í sögu sem Kínverjar telja að hvítþvoi Japana af grimmdarverkum í Seinni heimsstyrjöld. Umsókn Japana um sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna var þar að auki olía á eldinn. Um sex þúsund manns tóku þátt í mótmælagöngu vegna þessa í Peking í gær og héldur mótmælin áfram í borginni í dag og fleiri borgum. Kínversk stjórnvöld hafa ekki leyft nein mótmæli í landinu af þessari stærðargráðu en virðast líta öðrum augum á þetta einstaka mál. Japanar fullyrða jafnvel að lögregla hafi hvatt til þess að byggingar væru grýttar og lítið gert til að stöðva skemmdarverk. Japanar hafa lýst óánægju sinni með mótmælin og stjórnvöld í Tókýó hafa heimtað afsökunarbeiðni og vernd fyrir japanska borgara í Kína. Japanski utanríkisráðherrann er væntanlegur til Kína í næstu viku til að ræða málin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×