Innlent

Hljóðmanir verði settar upp

Yfirvöld í Kópavogi segja aðstæður við Kópavogsbrúna áhyggjuefni, en bifreið valt þar um helgina og endaði inni í garði fjölbýlishúss við brúna. Kópavogsbær hefur ráðgert að setja upp hljóðmanir á svæðinu en málið strandar á Vegagerðinni. Íbúar fjölbýlishúss við Kópavogsbrúna hafa krafist þess að girðing eða einhvers konar múr verði settur upp ofan við húsið, en á einum mánuði hafa tveir bílar oltið á svæðinu og endað inni í garði við húsið eftir árekstur af völdum hraðaksturs. Að sögn Steingríms Haukssonar, bæjarverkfræðings hjá Kópavogsbæ, hefur verið í undirbúningi í talsverðan tíma að setja upp hljóðmanir við Kópavogsbrúna en Vegagerðin hafi hingað til ekki viljað taka þátt í því. Brúin er yfir veginn sem tengir saman Kringlumýrarbraut og Hafnarfjarðarveg og er hluti af þjóðveginum. Vegagerðin telur það ekki sitt hlutverk að að reisa einhvers konar varnir á svæðinu en Kópavogsbær lítur svo á að það sé Vegagerðarinnar að tryggja umferðaröryggi á þjóðvegum landsins. Þegar er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar að setja upp allt að eins og hálfs metra háar hljóðmanir við Kópavogsbrúna og telja bæjaryfirvöld það sameiginlegt verkefni sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar að standa straum af kostnaðinum í því sambandi. Bæjarverkfræðingur Kópavogsbæjar segir að það hljóti að valda mönnum áhyggjum að bílar velti á svæðinu og endi inni í görðum hjá fólki. Hann bendir á að umferðarhraði sé mikill við brúna og því sé brýnt að auka öryggi með vörnum sem ekki sé hægt að aka yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×