Innlent

Segir ummæli ósmekkleg og ótímabær

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að ummæli Össurar Skarphéðinssonar formanns um að fátt nýtt komi frá framtíðarhópi flokksins séu ósmekkleg og ótímabær. Össur lét ummælin falla í Silfri Egils á Stöð 2 í gær þegar hann gagnrýndi vinnubrögð framtíðarhópsins, en Ingibjörg Sólrún fer fyrir hópnum. Ljóst er að aukin harka er kominn í kosningaslaginn fyrir landsfund Samfylkingarinnar sem haldinn verður í næsta mánuði, en bæði Ingibjörg Sólrún og Össur gefa kost á sér í formannsembættið. Ingibjörg segir ummæli formannsins setja vinnu framtíðarhópsins í erfiða stöðu. Hún hafi ekki heyrt þetta frá honum áður og henni finnist þetta ekki tímabær eða smekkleg ummæli. Það eigi ekki að ræða þessi mál opinberlega vegna þess að framtíðarhópurinn hafi ekki enn skilað af sér sinni vinnu og því eigi eftir að koma í ljós hvað komi út úr henni. Hópurinn vinni að tillögugerð og kynni þær á landsfundi. Það sé síðan flokksmanna á landsfundinum að ákveða hvað gert verði í framhaldinu. Ingibjörg bendir enn fremur á að þetta snúi ekki einungis að henni því að á vegum framtíðarhópsins hafi hátt í 100 manns unnið að stefnumótun a ýmsum sviðum. Sú vinna sé ekki eign hennar heldur flokksins og hið sama gildi um tillögurnar. Það sé landsfundar að ákveða hvað gert verði með þetta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×