Innlent

Meirihlutinn á bláþræði

Ástæðan er sú að á síðasta sveitarstjórnarfundi kvað Gísli upp þann úrskurð að Bjarni væri vanhæfur til að fjalla um tengingu við Þverárfjallsveg milli Sauðárkróks og Skagastrandar. Varð Bjarni að víkja af fundi vegna þessa. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal forseti sveitarstjórnar njóta stuðnings meirihluta sveitarstjórnar, og þar sem núverandi meirihluti sjálfstæðismanna og Vinstri-grænna hefur aðeins eins atkvæðis merihluta, blasir við að Gísli uppfyllir ekki þetta skilyrði, svo framarlega sem Bjarni Maronsson standi við yfirlýsingu sína. Víst er að á þetta mun reyna á fundi sveitarstjórnar í dag því að fulltrúar Framsóknarflokks hafa farið fram á að gengið verði úr skugga um stuðning við Gísla á fundinum. Gísli segir engar líkur á því að hann muni víkja úr stóli forseta til að leysa þá kreppu sem upp er komin innan Sjálfstæðisflokksins. "Ég sé engin efni til þess að ég víki," segir hann. Gunnar Bragi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórninni, telur hugsanlegt að núverandi meirihluti haldi velli þó svo að vantraust verði samþykkt á forseta sveitarstjórnar. "Ég tel allar líkur á að þessi meirihluti haldi áfram, hvernig sem hann klórar sig fram úr þessu," segir hann. Hann metur það svo að mestar líkur séu á því að sjálfstæðismenn skipti um mann í brúnni og haldi svo áfram samstarfi við Vinstri-græna. "Þeir hafa hingað til náð að komast í gegnum allan þann mikla ágreining sem milli flokkanna hefur verið og ég held að þeir geri það líka núna," segir Gunnar Bragi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×