Erlent

Styrkja kjarnorkuvarnir sínar

Norður-Kórea segist ætla að styrkja kjarnorkuvarnir sínar vegna fjandsamlegrar afstöðu Bandaríkjanna til landsins, að sögn Itar-Tass fréttastofunnar. Itar-Tass segir að forseti þings Norður-Kóreu hafi látið þessi orð falla í ræðu sem hann flutti fyrir æðstaráði landsins. Kim Yong-Nam sakaði Bandaríkin um áætlanir um að fara með hernaði gegn Norður-Kóreu og að landið myndi nota öll vopn í vopnabúri sínu til þess að verjast. Ekki er alveg ljóst hvort Norður-Kórea hefur þegar smíðað kjarnorkuvopn en norðanmenn lýstu því yfir fyrir nokkrum misserum að svo væri. Nokkuð ljóst er að landið hefur getu til þess að framleiða kjarnorkuvopn og á eldflaugar sem geta flutt þau. Hins vegar er ljóst að Kóreumenn hafa notað kjarnorkuáætlun sína til þess að reyna að herja út efnahagsaðstoð og því eru nokkrar efasemdir um að þeir eigi í rauninni vopn sem þeir geta beitt nú þegar. En auðvitað kærir enginn sig um að láta á það reyna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×