Innlent

Meðalverð lóða ríflega 100% hærra

Meðalverð á einbýlishúsalóðum í Norðlingaholti var vel á annað hundrað prósentum hærra í tilboðunum, sem opnuð voru í gær, en í tilboðunum í júní í fyrra. Þá er lóðaverð vegna íbúðar í fjölbýlishúsi orðið hærra en einbýlishúsalóð kostaði fyrir nokkrum misserum. Meðaltilboð verktaka í einbýlishúsalóðir í þriðja áfanga á Norðlingaholti, sem opnuð voru hjá Reykjavíkurborg í gær, hljóðuðu upp á 14 milljónir króna en 6,7 milljónir í sambærilegar lóðir í útboðinu 4. júní í fyrra. Hækkunin er því nokkuð á annað hundrað prósent á einbýlishúsalóðunum, en þær hækka mest. Lóðaverð fyrir íbúðir í tvíbýlis- og raðhúsum hækkar úr 4,3 milljónum upp í allt að 8,7 milljónir og lóðakostnaður vegna íbúðar í fjölbýlishúsi er orðinn rúmar fimm milljónir, hefur hækkað um 2,4 milljónir á íbúð síðan í fyrra. Þeir sem voru dregnir út í lóðahappdrættinu svonefnda við Lambasel í gær detta því sannarlega í lukkkupottinn því þeir fá um það bil tíu milljónir í forgjöf á þá sem sama dag voru að gera tilboð á almennum markaði. Lambaselslóðirnar kosta 3,5 til 4,6 milljónir en meðalverðið í útboðinu var 14 milljónir, eins og áður sagði. Þessi gríðarlega hækkun á lóðaverði mun óhjákvæmilega knýja á um enn frekari hækkun á nýjum íbúðum og þarf sú þróun að haldast áfram fram eftir öllu næsta ári, að íbúðirnar fara að verða tilbúnar, því ella verður að líkindum tap á byggingu þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×