Innlent

Gæti greitt fyrir Sundabraut

Til greina kemur að ráðstafa hluta af söluandvirði Símans í að fjármagna Sundabraut og önnur samgönguverkefni sem eru ekki í vegaáætlun. Þetta kom fram í svari Halldórs Ásgrímssonar við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, samflokksmanns hans. Fyrr í fyrirstpurnartímanum áttust Steingrímur J. Sigfússon og Halldór við um sölu Símans. Spurði Steingrímur Halldór hvort ríkisstjórnin myndi beita sér fyrir því að gefinn yrði rýmri tími til að undirbúa þátttöku almennings á kaupum á Símanum eða hvort söluferlinu yrði breytt til að auðvelda þátttöku almennings. Gagnrýndi hann þá ákvörðun að birta ekki skýrslu Morgan Stanley og sagði forsætisráðherra skýla sér á bak við einkavæðinganefnd. Halldór sagði að sá hópur sem nú undirbýr þátttöku almennings í þessum kaupum muni, eins og aðrir, fá nægan tíma til að skila inn tilboði og fagnaði áhuga þeirra. Hann hefði beint því til einkavæðinganefndar að fjalla um hvort gefa eigi lengri tíma til að undirbúa tilboð í Símann. Hvað varðar breytingar á söluferlinu svaraði hann því til að farið yrði eftir ráðleggingum Morgan Stanley, og að samkvæmt þeim fengist 20-25 prósenta hærra verð ef Síminn væri seldur í einu lagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×