Innlent

Kannast ekki við unglingasmölun

Kosningastjórar formannsefna Samfylkingarinnar kannast ekki við að fólk á þeirra vegum hafi verið að smala ungu fólki úr efstu bekkjum grunnskóla í raðir Samfylkingarinnar. Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi var viðtal við Helga Steinar Gunnlaugsson, sextán ára strák sem var skráður í Samfylkinguna án eigin vitundar í tengslum við formannskjörið í flokknum, en hópur barna í Breiðholtsskóla var skráður í flokkinn. Þrátt fyrir að Helgi Steinar hafi óafvitandi verið skráður í Samfylkinguna var hann ánægður með að hafa verið skráður í flokkinn. Krakkarnir sem voru skráðir í flokkinn eru nú kjörgengir í formannskjörinu og hafa fengið senda atkvæðaseðla heim til sín. Flosi Eiríksson, formaður kjörstjórnar Samfylkingarinnar, segir þessa framkvæmd í samræmi við lög Samfylkingarinnar. Ólafía B. Rafnsdóttir, kosningastjóri Ingibjargar Sólrúnar, segir að ekki hafi verið farið í neinar smölunarferðir inn í grunnskóla á landinu. Það liggi í augum upp að smölunin sé ekki á vegum stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar en reglur Samfylkingarinnar leyfi unglingum að skrá sig 16 ára í flokkinn. Árni Björn Ómarsson, kosningastjóri Össurar, segir að stuðningsmenn hans hafi ekki farið í grunnskóla til að smala ungu fólki í flokkinn. Hann telji þetta einstakt tilvik þar sem ákafur ungur jafnaðarmaður sé að safna saman sínum félögum. Hann sé greinilega póltískt þenkjandi ungur maður og Árni spyr hvort það sé ekki hið besta mál fyrir þjóðfélagið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×