Erlent

Spennan magnast í Bretlandi

Spennan magnast dag frá degi fyrir kosningarnar í Bretlandi. Það eru átta dagar þangað til Tony Blair verður endurkjörinn forsætisráðherra Bretlands, ef eitthvað er að marka skoðanakannanir dagsins. Meðaltal kannananna lítur þannig út að Íhaldsflokkurinn er með 33 prósent, Verkamannaflokkur Blairs með 39 prósent og frjálslyndir demókratar með 21 prósent. Átta prósent eru enn óákveðin. Þetta hljómar eins og úrslitin séu ráðin en pólitíkin á Bretlandi er skrítin tík og það er ekki endilega allt sem sýnist. Það þarf mikið að bera út af til þess aðBlair verði ekki fyrsti forsætisráðherra Bretlands til þess að vera kjörinn til að sitja þriðja kjörtímabilið. En það eru töluverðar líkur á að það verði veikur forsætisráðherra sem stendur uppi eftir kosningarnar, en ekki sterkur leiðtogi. Til þess að skipta einhverju máli verður Blair að koma stefnumálum sínum í gegnum þingið og það gæti reynst töluvert erfiðara eftir kosningar. Eftir kosningarnar 1997 og 2001 var flokkurinn með yfir 160 sæta meirihluta á þingi. Stefnan núna er að hafa ekki minna en sjötíu, helst áttatíu sæta meirihluta. Það er alls ekki gefið og jafnvel þó að það takist er Blair ekki hólpinn: vinsældir hans innan flokks, líka á meðal þingmanna, hafa dvínað og fjöldi vinstrisinnaðra þingmanna er honum beinlínis mótfallinn. Þeir eru næstum allir á meðal þeirra þingmanna sem verða örugglega endurkjörnir og valda því áfram vandræðum. Blair væri því heldur valdalítill á valdastóli. Niðurstaðan veltur ekki síst á kosningaþátttöku og því leggja breskir stjórnmálamenn nú allt í sölurnar til að særa fólk á kjörstaði eftir rúma viku. Spennan magnast og harkan eykst. Hægt er að geta einnar könnunar í viðbót sem er Blair í hag: Brugghús í Bury St. Edmunds selur þrjár tegundir sérbruggaðs bjórs, sem skírðar eru í höfuðið á meginframbjóðendunum þremur: Blair, Michael Howard og Charles Kennedy. Blair-bjórinn selst langmest.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×