Innlent

Segja spurningum ekki svarað

Fjárlaganefnd Alþingis ákvað á fundi sínum í gær að Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi hefði ekki gefið fullnægjandi svör við spurningum nefndarmanna um einkavæðingu á Búnaðarbanka og Landsbanka á árunum 2002 til 2003. Því var fallist á að kalla framkvæmdanefnd um einkavæðingu, og fyrrum nefndarmenn hennar, á fund nefndarinnar að tíu dögum liðnum. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar sagði að ekki hefðu fengist svör við ýmsum veigamiklum spurningum, svo sem þeirri, hvers vegna báðir bankarnir voru seldir í einu þrátt fyrir að talið væri að hærra verð fengist fyrir þá yrðu þeir seldir hvor í sínu lagi, hvers vegna Kaldbakshópnum hefði verið synjað á þeim forsendum að hann hefði ekki erlendan fjárfesti á sínum vegum og hvers vegna hæsta verðið var ekki látið gilda varðandi söluna á Landsbankanum. "Einnig var spurt hvers vegna samsetning S-hópsins breyttist dag frá degi meðan viðræðurnar stóðu yfir og hvenær þýski bankinn kom inn í myndina og hver aðkoma hans nákvæmlega var," segir Lúðvík. Ríkisendurskoðandi fundaði með Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra áður en hann mætti fyrir fjárlaganefnd. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu tengist sá fundur ekki einkavæðingu bankanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×