Innlent

Undrast synjun Húnvetninga

Bæjarstjórinn á Akureyri lýsir undrun yfir synjun Austur-Húnvetninga á ósk Vegagerðar um styttingu hringvegarins fram hjá Blönduósi. Krafa samfélagsins sé að stytta leiðir sem mest, ekki síst til að lækka flutningskostnað. Vegagerðin hefur óskað eftir því að gert verði ráð fyrir nýju vegarstæði hringvegarins í svæðisskipulagi sem sveitarfélög í Austur-Húnaþingi vinna að. Með því myndi hringvegurinn styttast um fimmtán kílómetra. Austur-Húnvetningar sjá sér ekki fært að verða við óskum Vegagerðarinnar. Rökin eru þau að það sé samdóma álit heimamanna að lega hringvegar sé á allan hátt farsælust fyrir héraðið um Blönduós. Blönduós sé aðalþjónustukjarni og miðstöð héraðsins. En hver eru viðbrögð bæjarstjórans á Akureyri við þessari neitun Húnvetninga? Kristján Þór Júlíusson segist undrandi á synjuninni. Það hljóti að vera markmið að lækka flutningskostnað með því að stytta vegalengdir og tíma milli staða í samfélaginu öllu. Þær hugmyndir sem hafi verið uppi um að stytta leiðir milli höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta gangi út á það að stytta vegalengdir sem mest og því komi þetta á óvart. Hann segir að slík stytting snúist ekki bara um hagsmuni Akureyringa. Fólk komi einnig að sunnan og úr öðrum landshlutum og fari um þjóðveg eitt og ætíð sé verið að leita skemmstu leiða milli staða, en nýlega hafi t.d. verið rætt um Sundabraut á höfuðborgarsvæðinu. Þetta gangi því þvert gegn þeim áherslum sem uppi séu í samfélaginu nú. Bæjarstjórinn segist talsmaður enn frekari styttinga með hálendisvegum. Hann segist einnig hafa orðið var við áhuga fyrir þeim hugmyndum á Suðurlandi, meðal annars til að stytta leiðina á milli Norður- og Suðurlands og tengja þar með ferðaþjónustu inn í þetta sitt hvorum megin hálendis. Þessar hugmyndir séu uppi í samfélaginu og þær beri að skoða fordómalaust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×