Erlent

Kjarnorkuráðstefna í uppnámi

Ráðstefna utanríkisráðherra aðildarlanda NPT-sáttmálans um kjarnorkuafvopnun sigldi eiginlega í strand áður en hún hófst. Deilt er um hvort sé mikilvægara: að koma í veg fyrir að fleiri ríki eignist kjarnavopn eða að fækka þeim vopnum sem til eru. Um þrjátíu þúsund kjarnaoddar eru til í heiminum og hefur þeim fjölgað fremur en fækkað síðustu árin, þvert á markmið sáttmálans.  Sáttmálinn sem um ræðir er frá árinu 1970 og er því orðinn 35 ára gamall. 188 lönd eiga aðild að sáttmálanum og samkvæmt honum mega aðeins Bandaríkin, Rússland, Kína, Frakkland og Bretland eiga kjarnavopn. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst áhyggjum af trúverðugleika sáttmálans, nú þegar Indland og Pakistan, sem eiga kjarnavopn, eru ekki aðilar að sáttmálanum, né heldur Ísrael, sem sagt er eiga kjarnavopn þó að það hafi aldrei viðurkennt það opinberlega. Þá hætti Norður-Kórea við að mæta á ráðstefnuna. Bandaríkjamenn vilja að aðaláherslan verði lögð á að stöðva þróun kjarnavopna í Íran og Norður-Kóreu en fulltrúar fjölmargra annarra ríkja sem mættir eru vilja hins vegar ræða hversu hægt gengur hjá Bandaríkjamönnum og Rússum að fækka sínum kjarnavopnum. Hvort ríki um sig er talið eiga 7.000-8.000 virka kjarnaodda. Þar að auki eiga Bandaríkin 3.000-5.000 odda í geymslu og Rússar um 8.000. Kínverjar eru sagðir eiga rúmlega 400 kjarnaodda, Frakkar 346 og Bretland 185. Indverjar eiga um 40 stykki og Ísraelar eru taldir eiga um 200 kjarnaodda. Ráðherrarnir hafa þó tæpan mánuð til að komast að niðurstöðu því ráðstefnunni lýkur ekki fyrr en 27. maí.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×