Innlent

Vissi ekki af fíkniefnunum

Skipverjarnir á Hauki ÍS, sem handteknir voru í Þýskalandi í byrjun janúar eftir að sjö kíló af fíkniefnum fundust í farangri þeirra, hafa verið látnir lausir. Mennirnir tveir, sem eru á fertugs- og sextugsaldri, voru teknir höndum þegar 3,5 kíló af kókaíni og sama magn af hassi fannst í ferðatöskum þeirra þar sem skipið lá við höfn í Bremerhaven í Þýskalandi. Sá eldri segist laus allra mála en hann losnaði úr fangelsi fyrir hálfum mánuði. Hann heldur fram sakleysi sínu og segist ekki hafa vitað af fíkniefnunum um borð í skipinu. Maðurinn segir þann yngri einnig vera lausan úr fangelsinu og telur hann vera kominn til Íslands. Hann segist þó ekki hafa haft samband við hann og á ekki von á að það gerist síðar. Hann segir fyrstu vikuna í fangelsinu í Þýskalandi hafa verið mjög þungbæra og það sé mikill léttir að vera laus. Aðpurður segir hann lögfræðing sinn í Þýskalandi vera að kanna hvort hann geti farið fram á skaðabætur fyrir þann tíma sem hann sat inni og hvort það muni borga sig. En það er ekki víst þar sem tíminn sem þeir sátu í gæsluvarðhaldi þyki ekki óeðlilegur í Þýskalandi. Skipverjinn segir mjög vel hafa verið tekið á móti honum þegar hann kom heim og honum hafi þegar verið boðin vinna á nokkrum stöðum. Og segist hann viss um að hann muni ekki athuga með starf á Hauki ÍS aftur. Þær upplýsingar fengust frá tollinum í Hamburg að rannsókn málsins væri lokið af þeirra hálfu. Málið væri komið í hendur héraðsdóms í Bremerhaven og þangað þyrftu fjölmiðlar að leita eftir upplýsingum. Ekki náðist þó í neinn þar í dag sem gat veitt upplýsingar um málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×