Erlent

Óvissa um kosningaþátttöku

Kjörstöðum í Bretlandi verður lokað klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma og þá verða fyrstu útgönguspár birtar, þær hafa þó stundum ekki reynst alls kostar réttar en þetta ætti allt að liggja ljóst fyrir snemma í fyrramálið. Dagurinn í dag hefur annars verið nokkurs konar frídagur fyrir pólitíkusana eftir stutta og snarpa kosningabaráttu sem hefur aðallega snúist um Írak. Leiðtogar stóru flokkanna þriggja kusu í sínum kjördæmum í dag eins og lög gera ráð fyrir. Þeir eru allir öruggir sigurvegarar í sínum kjördæmum og því öruggir með sín eigin þingsæti en kannski ekki mikið meira. Kosningaþátttakan skiptir sköpum. Hún var í sögulegu lágmarki síðast þegar aðeins 59 prósent Breta höfðu fyrir því að mæta á kjörstað og kjósa. Það er sérstaklega Verkamannaflokkurinn sem bindur vonir við að kosningaþátttakan verði meiri núna því þeir hafa vanalega grætt á því. Eitt af því sem skiptir máli hvað það varðar er veðrið. Kosningaþátttakan virðist hanga í um 70 prósentum ef það er gott veður, sólskin og blíða en fyrir fjórum árum var bæði rigning og kuldi og því fór sem fór. Veðrið í dag hefur hins vegar verið gott, sólskin og hiti svo hlutirnir virðast ætla ganga upp hjá Tony Blair og Verkamannaflokknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×