Erlent

Stjórnin heldur velli en veikist

Tony Blair forsætisráðherra og Verkamannaflokkurinn tryggðu sér í dag setu á valdastólum þriðja kjörtímabilið í röð. Sigurinn er hins vegar súrsætur þar sem meirihluti flokksins á þingi er mun minni en áður. Samkvæmt útgönguspá sjónvarpsstöðvanna BBC og ITV hefur stjórn Verkamannaflokksins 66 sæta meirihluta á þingi og hefur tapað nær hundrað þingsætum frá kosningunum 2001. Samkvæmt könnuninni fékk Verkamannaflokkurinn 37 prósent atkvæða, lægsta hlutfall atkvæða sem hefur dugað til stjórnarsetu hingað til. Íhaldsflokkurinn fékk samkvæmt sömu könnun þriðjung atkvæða og Frjálslyndir demókratar 22 prósent. Ýmis minni framboð skiptu samkvæmt þessu á milli sín átta prósentum atkvæða. 645 þingmenn eiga sæti á breska þinginu. Traustur meirihluti Verkamannaflokksins, fyrstu tvö kjörtímabil sín í stjórn, hefur gert að verkum að Blair hefur getað farið sínu fram þrátt fyrir oft á tíðum mikla óánægju innan síns eigin flokks. Tapið nú getur orðið til þess að Blair og ríkisstjórn hans reynist erfiðara en áður að ná málum í gegnum þingið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×