Innlent

Ný samkeppnislög

Lög um samkeppnismál voru afgreidd frá Alþingi í fyrradag. Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingunni, sagði í umræðum um atkvæðagreiðsluna að lagabreytingarnar snerust fyrst og fremst um aðferðir stjórnarflokkanna til að ná pólítískum tökum á sjálfstæðum og óþægilegum stofnunum, auk þess sem koma þyrfti vildarvinum fyrir í kerfinu. Samkeppnisstofnun væri í fjársvelti og 100 milljónir króna skorti til að ljúka þeim verkefnum sem borist hefðu henni. "Samkeppnisstofnun gerði ríkisstjórninni það sem alls ekki mátti gera. Hún snerti hina ósnertanlegu. Hún snerti þá sem aldrei hafa þurft að bera ábyrgð á gerðum sínum. Hún snerti þá sem hingað til hafa setið á fremsta bekk á landsfundum stjórnarflokkanna og rakað saman fé í þeirra þágu. Almenningur mun fylgjast með hverri hreyfingu viðskiptaráðherra í þessu máli," sagði Lúðvík. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra sagði frumvörpin eitt merkasta mál þingsins í vetur. Ákvörðunarvald yrði fært frá fimm manna pólítískt skipuðu samkeppnisráði til samkeppniseftirlitsins. Fjárframlög yrðu aukin. "Stjórnarandstaðan hefur lagst lágt að halda því fram að um sé að ræða hefndaraðgerðir stjórnvalda vegna olíumálsins. Við upphaf þess í desember 2001 var haft eftir mér í einu dagblaðanna að aðgerðin hefði verið "heppileg og hörð". Auk þess hafnaði ég beiðni Verslunarráðs um að hafa afskipti af málinu og láta rannsaka afskipti Samkeppnisstofnunar," sagði Valgerður. Guðjón A. Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði lögin auka handstýringu stjórnvalda. "Hér er gengið gegn hagsmunum neytenda og við höfnum þessari málsmeðferð," sagði Guðjón. "Með lagasetningunni er verið að opna fyrir pólítíska íhlutun í samkeppniseftirlit enda lögin sett til höfuðs forstöðumönnum sem gengu vasklega fram í olíumálinu," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×