Erlent

Höfða mál gegn Hollendingum

Ættingjar nokkurra þeirra Bosníumúslima sem Serbar myrtu við Srebrenitsa árið 1995 hafa höfðað mál á hendur hollenskum yfirvöldum til að fá úr því skorið hver það var nákvæmlega sem gaf hollensku friðargæsluliðunum skipun um að vísa fólkinu út í opinn dauðann. Dómstóll í Haag hefur kallað háttsetta yfirmenn í hernum til yfirheyrslu í dag til að meta hvort ástæða sé til að taka málið fyrir að nýju. Ríkisstjórn Wims Koks sagði af sér fyrir þremur árum í kjölfar þess að rannsóknarnefnd komst að þeirri óyggjandi niðurstöðu að ríkisstjórnin og háttsettir hollenskir herforingjar hefðu átt að reyna að koma í veg fyrir þessi fjöldamorð. Talið er að Serbar hafi tekið um átta þúsund múslima, allt karlmenn, af lífi í kjölfar árásarinnar á Srebrenitsa. Bærinn var á þeim tíma skilgreindur sem verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna undir eftirliti hollensku friðargæsluliðanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×