Erlent

Stjórnarskrá ESB samþykkt

Stjórnarskrá Evrópusambandsins var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í neðri deild þýska þingsins í morgun. Ekki er búist við að Frakkar fari eins mjúkum höndum um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu í lok mánaðarins.  Stjórnarskráin á að einfalda stjórnsýslu innan Evrópusambandsins. Hún kveður meðal annars á um sameiginlega utanríkisstefnu að hluta og meiri völd til Evrópuþingsins. Þá verður neitunarvald aðildarríkja fellt niður í mörgum málaflokkum. Þetta er hins vegar afar umdeilt plagg og það öðlast ekki gildi nema öll 25 aðildaríki ESB samþykki það. Þegar hafa sex ríki fullklárað það ferli og fjögur önnur eru komin langleiðina með að gera það, þar á meðal fjölmennasta Evrópusambandsríkið, Þýskaland. Gerhard Schröder,  kanslari landsins, sagði í dag að þeir sem vilji meira lýðræði í Evrópu verði að greiða atkvæði með stjórnarskránni. Ólíkt Þýskalandi þar sem samþykki þingsins nægir þá þarf að leggja stjórnarskrána fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu í mörgum löndum, þar á meðal Frakklandi þar sem gengið verður til kosninga um málið 29. maí og í Hollandi þar sem kosið verður 1. júní. Afar mjótt er á mununum í Frakklandi, þar sem strípalingur ruddist inn á þingpalla í dag til að lýsa persónulegu frati á stjórnarskrána, og nýjustu kannanir benda til þess að Hollendingar segi „Nei, takk“. Fari svo má búast við búast við upplausn í Brussel og allsherjar naflaskoðun á framhaldi Evrópusamstarfsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×