Erlent

Færri herstöðvum lokað en til stóð

Herstöðvum Bandaríkjamanna á heimavelli verður fækkað mun minna en til stóð. Áhrifin á Keflavíkurstöðina eru óljós en fjölmargar tillögur hafa verið lagðar fram um framtíðarfyrirkomulag stöðvarinnar. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, greindi frá tillögum um niðurskorð í gær og sagði umframrými herstöðva yrði minnkað um fimm til ellefu prósent á næstu tuttugu árum. Þannig vill hann spara ríkissjóði allt að fimmtíu milljarða dollara. Niðurskurðurinn er þó mikið minni en í upphafi var talið en þá var rætt um allt að fjórðungsniðurskurð á herstöðvum í Bandaríkjunum. Nú segir Rumsfeld það óhentugt þar sem fjöldi hermanna sem er við störf erlendis og með aðsetur í bandarískum herstöðvum utan Bandaríkjanna sé væntanlegur heim á næstunni. Rumsfeld nefndi hins vegar ekki niðurskurð á herstöðvum erlendis, en niðurskurður á Keflavíkurstöðinni fellur undir þann lið. Í ljósi þess að ekki á að skera mikið niður vestan hafs má þó leiða líkum að því að enn minni ástæða sé til þess að halda úti stórum herstöðvum utan landamæra Bandaríkjanna auk þess sem það samræmist ekki vel þeirri stefnu sem er ríkjandi innan hersins sem stendur. Viðmælendur fréttastofu Bylgjunnar segja margs konar tillögur hafa verið unnar um framtíð Keflavíkurstöðvarinnar sem feli í sér breytingar af öllum gerðum, frá róttækum niðurskurði sem lyki með aðeins nokkrum tugum hermanna til rekstrarbreytinga sem gætu haft í för með sér að umfang Keflavíkurstöðvarinnar myndi aukast. Beðið er ákvörðunar í Hvíta húsinu og viðræðna við íslensk stjórvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×