Innlent

Ekki sáttur við niðurstöðu nefndar

Formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, Björgólfur Jóhannsson, er ekki sáttur við þá niðurstöðu svokallaðrar hágengisnefndar um að ekki sé ástæða til að grípa til sértækra aðgerða vegna hás gengis krónunnar. Hágengisnefnd viðurkennir í skýrslu, sem kynnt var í gær, að afkoma og rekstrarskilyrði sjávarútvegsins séu óviðunandi en samkvæmt niðurstöðum megi sjá merki um jákvæða þróun mitt í öllum erfiðleikunum. Formaður LÍÚ segir menn þar á bæ ekki sátta við þá niðurstöðu að ekki þurfi að grípa til aðgerða. Niðurstaða skýrslunnar komi honum þó ekki á óvart en sambandið telji að aðstæðurnar komi til með að hafa áhrif á útgerð og vinnslu mjög víða. Aðspurður hvort hann eigi við að sum fyrirtæki séu komin að fótum fram segir Björgólfur að hann telji að í sumum greinum hafi staða krónunnar komið mjög illa niður á rekstri fyrirtækja. Undanfarnar tvær vikur hafi þó orðið breyting á en þar á undan hafi hágengið komið mjög hart niður á vinnslu mjög víða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×