Erlent

Högnuðust á viðskiptum við Saddam?

Bandarísk þingnefnd, sem rannsakar spillingamál í tengslum við olíusöluáætlun Sameinuðu þjóðanna, sakar rússneska stjórnmálamenn um að hafa hagnast um tugmilljónir dollara í olíuviðskiptum við Saddam Hussein. Sama þingnefnd olli írafári í síðustu viku þegar hún sakaði tvo þekkta stjórnmálamenn í Frakklandi og Bretlandi um að hafa makað krókinn á olíuviðskiptum við Saddam. Nefndin hefur upplýsingar sínar að mestu frá fyrrverandi embættismönnum Saddams og hefur nú sett fram frekari ásakanir. Að þessu sinni eru það rússneskir stjórnmálamenn, þar á meðal fyrrverandi aðstoðarmaður Pútíns forseta og þjóðernissinninn Vladimir Zhirinovsky sem nefndin segir að hafi, gegn mútugreiðslum - vafasömum olíupeningum - talað máli Íraks hjá rússneskum stjórnvöldum. Utanríkisráðuneyti Rússa hefur neitað að svara þessu fyrr en endanleg skýrsla bandarísku þingnefndarinnar liggur fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×