Innlent

Rúmlega 11 þúsund kusu formann

Frestur til að kjósa formann Samfylkingarinnar og skila atkvæðinu rann út nú klukkan sex. Alls bárust rúmlega 11 þúsund atkvæði en úrslit verða birt á hádegi á laugardaginn. Reglurnar voru skýrar. Atkvæðið yrði að hafa borist klukkan sex ef það ætti að teljast með. Fáum mínútum áður en klukkan sló var ys og þys á skrifstofu Samfylkingarinnar. Margir voru á síðustu stundu til að koma atkvæði sínu til skila en fjórar vikur eru frá því atkvæðaseðlar voru sendir út í póstkosningunni. Á slaginu sex var dyrunum læst. Það var ekki fyrr búið að snúa lyklinum en einhverjir birtust, örfáum sekúndum of seinir. Síðast kusu fimm þúsund manns í formannskjöri Samfylkingarinnar. Hvað voru þeir margir nú? Flosi Eiríksson, formaður kjörstjórnar, segir að eftir eigi að bera það sem barst í dag saman við kjörskrá en kjörstjórnin treysti sér til að segja að rúmlega ellefu þúsund að lágmarki hafi kosið. Talið verði á laugardagsmorguninn og úrslitin tilkynnt klukkan 12.01 sama dag. Þá komi í ljós hver verði næsti formaður Samfylkingarinnar og næsti forsætisráðherra lýðveldisins. Úrslitin í formannskjöri Samfylkingarinnar verða tilkynnt í beinni útsendingu í aukafréttatíma á Stöð 2 í hádeginu á laugardaginn. Þá verða líka flutt ávörp þess sem sigrar og þess sem tapar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×