Erlent

Endalok stjórnarskrár ESB?

Forseti Evrópusambandsins segir að hafni Frakkar stjórnarskrá Evrópusambandsins þýði það endalok hennar. Jean Claude Junker, forsætisráðherra Lúxemborgar og núverandi forseti Evrópusambandsins, segir að verði stjórnarskránni hafnað í Frakklandi verði ekki gerð tilraun til þess að smíða hana á nýjan leik og leggja hana fyrir dóm almennings í Evrópu með breyttu sniði. Verði stjórnarskránni hafnað í Frakklandi þýði það einfaldlega að Evrópusambandið hafi færst tuttugu ár aftur í tímann og að Frakkar muni ekki lengur leiða Evrópu. Þá telur Juncker ekki raunhæft að halda áfram með þjóðaratkvæðagreiðslur ef stjórnarskráin hrasar við fyrstu hindrun. Þó að vissulega væri hægt að útiloka Frakka einfaldlega frá stjórnarskránni, og innleiða hana í þeim löndum þar sem hún verður samþykkt, sé það ekki möguleiki sem menn íhugi í fullri alvöru. Því megi í raun segja að hafni Frakkar stjórnarskránni marki það endalok hennar. Aðeins níu dagar eru þangað til kosið verður um stjórnarskrána í Frakklandi og benda skoðanakannanir undanfarinna daga til þess að mjög mjótt verði á mununum. Enn er þó meira en helmingur andsnúinn stjórnarskránni, þó að heldur hafi dregið saman með fylkingunum tveimur. Tuttugu og fimm háttsettir stjórnmálamenn frá allri Evrópu hafa verið fengnir til Frakklands til þess að hjálpa stjórnvöldum í landinu við að telja almenningi trú um ágæti stjórnarskrárinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×