Innlent

Næturfrost dregur úr sprettu

Veðurstofa Íslands segir frostanætur hafa verið alltíðar það sem af er maímánuði, en gróður vex hægar af þeim sökum. "Lætur nærri að í innsveitum hafi mælst frost aðra hverja nótt," segir í tilkynningu Veðurstofunar. Þannig eru frostnætur sagðar hafa verið tólf á Hjarðarlandi í Biskupstungum og þrettán á Staðarhóli í Aðaldal, það sem af er mánuðinum. "Í Reykjavík hefur næturfrost einnig verið oftar en venja er til eða átta sinnum líkt og á Akureyri." Hingað til hefur mánuðurinn verið heldur kaldari en í meðalári á landinu, en á Norðurlandi hefur meðalhiti undanfarin þrjú ár verið svipaður á saman tíma, frá 1. til 21. maí. Veðurstofan segir að það sem af er mánuðinum hafi einnig verið þurrt og úrkoman mælst um eða innan við 10 millimetrar í flestum landshlutum, að undanskildu Norðausturlandi, og tiltekur að af þessum völdum hafi gróðurframvinda verið heldur hæg þetta vorið, þar sem bæði næturfrostið og þurrkarnir hægi á vexti gróðurs. Jafnframt er þó bent á að maímánuð einkenni jafnan hár loftþrýstingur með björtu veðri og lítilli úrkomu, þar sem norðanátt er gjarnan ríkjandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×