Erlent

Frakkar höfnuðu stjórnarskránni

Frakkar höfnuðu nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær með fimmtíu og fimm prósent atkvæða. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar niðustöður voru tilkynntar. Úrslitin eru þó áfall fyrir Jacque Chirac Frakklandsforseta sem sagði eftir að úrslit voru ljós að Frakkland hefði tjáð sig með lýðræðislegum hætti. Þetta væri réttmæt ákvörðun og að hann myndi taka tillit til hennar. Jean-Pierre Raffarin, forsætisráðherra Frakklands, sagði að úrslitin væru mikil vonbrigði en Philippe de Villiers, sem var í forystu þeirra sem börðust gegn stjórnarskránni í Frakklandi, lýsti því hins vegar yfir að stjórnarskráin væri marklaust plagg. Nauðsynlegt væri að endurbyggja Evrópu og reisa nýjar valdastofnanir. Þá hvatti de Villiers Chirac til að segja af sér embætti og að franska þingið yrði rofið. Jean-Marie Le Pen, leiðtogi hægriöfgamanna í Frakklandi, krafðist þess einnig að Chirac segði af sér. Günter Verheugen, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gærkvöld, að niðurstaðan í Frakklandi væri ekki jákvæð en þó væri ekki um að ræða alvarlegt áfall fyrir Evrópu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×