Erlent

Ekki marklaust plagg

Evrópskir leiðtogar hafa lýst því yfir að þrátt fyrir að stjórnarskránni hafi verið hafnað í Frakklandi eigi önnur Evrópuríki ekki að láta deigan síga og halda ferlinu áfram. Stjórnarskráin sé ekki marklaust plagg. Forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean Claude Juncker, tók í sama streng en hann fer með forsæti ESB um þessar mundir. Hollenski forsætisráðherrann, Jan Peter Balkenende, hvatti Hollendinga til að samþykkja stjórnarskrána þrátt fyrir niðurstöðuna í Frakklandi en sérfræðingar telja líklegt að allt að sextíu prósent segi „nei“ við henni þar í landi sem yrði fimm prósentum fleiri en í Frakklandi. Þá sagði Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, í gær að Svíar muni halda áfram staðfestingarferli stjórnarskrár Evrópusambandsins. Hann sagði við sænska fjölmiðla að niðurstaðan í Frakklandi væri áfall en að hann búist við að sænska þingið staðfesti stjórnarskrána í desember eins og áformað hefði verið. Stjórnarskráin væri nauðsynleg forsenda þess að ESB gæti haldið áfram að stækka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×