Erlent

Frestar umræðunni í Noregi

Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, segir niðurstöðuna í Frakklandi fresta umræðunni um inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Norðmenn hafa í tvígang hafnað því að sækja um inngöngu í sambandið, 1972 og 1994. Bondevik hefur hingað til sagt að umræða um hvort sækja ætti um inngöngu færi í fyrsta lagi fram eftir næstu kosningar en eftir úrslitin í Frakklandi í gær telur hann að enn lengra sé í slíka umræðu þar sem óljóst sé hvernig Evrópusambandið muni verða. Margir sérfræðingar óttast að úrslit atkvæðagreiðslunnar í Frakklandi leiði til dýpstu kreppu sem Evrópusambandið hafi lent í frá því það var stofnað fyrir 48 árum. Stefnt er að því að stjórnarskráin taki gildi fyrsta júní á næsta ári en öll ESB-ríkin 25 þurfa að staðfesta hana fyrst, annað hvort í þjóðaratkvæðagreiðslu eða í atkvæðagreiðslu á þjóðþingum. Níu ríki hafa þegar staðfest stjórnarskrána, þar á meðal Þýskaland, Ítalía og Spánn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×