Erlent

Skiptir niðurstaðan engu?

Frakkar felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær. Leiðtogar sambandsins reyna nú hver á fætur öðrum að fullvissa fólk um að það geri ekkert til. Talið er víst að Hollendingar felli stjórnarskrána líka á miðvikudag. Úrslit kosninganna í Frakklandi komu svo sem ekki á óvart en munurinn var þó miklu meiri en menn höfðu búist við. Það er ekki hægt að kalla það annað en dúndrandi ósigur fyrir Jacques Chirac, forseta Frakklands, og Evrópusambandið sjálft að fimmtíu og fimm prósent Frakka sögðu „nei“ en aðeins fjörutíu og fimm prósent sögðu „já“. Ekki er talið að útkoman verði betri í Hollandi á miðvikudag. Samkvæmt skoðanakönnun sem var gerð þar fyrir kosningarnar í Frakklandi eru rúmlega sextíu og fimm prósent Hollendinga á móti stjórnarskránni. Úrslitin í Frakklandi hafa engin áhrif hér á landi en Tyrkir og Króatar óttast að þau komi til með að þýða seinkun á aðildarviðræðum þeirra við Evrópusambandið. Talsmaður sambandsins sagði reyndar að stjórnarskráin og aðildarviðræður væru óskyld mál og ættu ekki að hafa áhrif hvort á annað. Raunar hafa leiðtogar Evrópu keppst við það í dag að reyna að sannfæra fólk um að höfnun Frakka sé ekki svo alvarleg eftir allt saman. Einn þessara leiðtoga er Javier Solana sem er utanríkismálastjóri Evrópusambandsins en verður utanríkisráðherra þess ef stjórnarskráin verður einhverntíma samþykkt. Hann sagði vinnuna halda áfram, dag og nótt, því ekki verði ljóst hver afdrif stjórnarskrárinnar verði fyrr en í nóvember 2006. Hverjar afleiðingarnar verða fyrir Frakkland er óljóst ennþá. Chirac forseti segir að hann muni ekki segja af sér sjálfur en hann ætlar á morgun að skýra frá breytingum sem gerðar verði á ríkisstjórninni. Hann hefur þegar gefið í skyn að Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra verði látinn fjúka, en þeir gætu orðið fleiri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×