Erlent

Brottflutningur frá Gasa löglegur

Brottflutningur Ísraelsmanna frá Gasa og fjórum stöðum á Vesturbakkanum er löglegur samkvæmt dómi hæstaréttar Ísraels í dag. Andstaða við brottflutninginn fer þó stigmagnandi meðal almennings í Ísrael. Einn stærsti ágreiningur Palestínumanna og Ísraela eru landnemabyggðir gyðinga inni á svæðum Palestínumanna. Á Gasasvæðinu búa níu þúsund gyðingar innan um eina og hálfa milljón Palestínumanna og njóta öflugrar verndar ísraelskra hersveita. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefur heitið því að landnemabyggðirnar á Gasasvæðinu verði lagðar niður og að fólksflutningar hefjist í ágúst. Úrskurður hæstaréttar Ísraels í morgun ætti að tryggja að sú áætlun standist en fyrir rétti var deilt um hvort brotið væri á réttindum þeirra gyðinga sem þurfa að flytja frá svæðinu. Dómsúrskurðurinn kemur í kjölfar skoðanakannana sem sýna að stuðningur við fyrirætlanir Sharons minnkar stöðugt. Til að byrja með voru 70 prósent Ísraela hlynntir brottflutningi landnema af Gasasvæðinu en sú tala er komin undir 50 prósent. Í kjölfar aðgerða herskárra Palestínumanna á Gasa hafa raddir þeirra sem eru mótfallnir brottflutningi orðið æ háværari og óttast er að ofbeldi færist í aukana. Margir landnemanna álíta Vesturbakkann og Gasasvæðið sína jörð samkvæmt biblíulegum skilningi og brottflutningur geri ekkert annað en að umbuna palestínskum hryðjuverkamönnum. Borgarstjórinn í Gasa, Avner Shimoni, fullyrti að niðurstaða Hæstaréttar breytti engu því ísraelska þjóðin væri andvíg brottflutningi sem þýddi að ísraelska þingið yrði að breyta áætlunum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×