Erlent

Mladic að gefa sig fram?

Fjölmiðlar og mannréttindasamtök í Serbíu segja að Ratko Mladic hershöfðingi sé að semja við stjórnvöld um að gefa sig fram við stríðsglæpadómstólinn í Haag. Mladic stjórnaði persónulega aðgerðum í Srebrenitsa þar sem talið er að átta þúsund múslima hafi verið myrt. Hann og Radovan Karadzic, sem var pólitískur leiðtogi Bosníu-Serba í stríðinu, hafa báðir farið huldu höfði í fjögur ár og verið ákaft leitað. Mladic mun eiga erfitt með að sverja Srebrenitsa af sér því það eru til sjónvarpsmyndir af honum þar sem hann gengur um meðal fólksins og lofar því að það skuli flutt á öruggan stað þar sem vel verði farið með það. Hann og hermenn hans sjást gefa börnum sælgæti. Fólkið var svo flutt á brott í rútum og flest allir karlmenn og ungir drengir myrtir. Margir Serbar líta hins vegar á þá Mladic og Karadzic sem þjóðhetjur, og nógir til að skjóta yfir þá skjólshúsi og verja þá síðastliðin fjörug ár. Fyrr í þessu mánuði voru sýndar myndbandsupptökur af því þegar sex óvopnaðir múslimar frá Srebrenitsa, með hendurnar bundnar fyrir aftan bak, voru myrtir. Þessar myndir voru margsýndar í serbneska sjónvarpinu og er leitt að því getum að stjórnvöld hafi verið að búa þjóðina undir að Mladic yrði framseldur. Þrjú dagblöð í Serbíu hafa skýrt frá því að Mladic sé nú tilbúinn til þess að gefa sig fram frekar en að vera handtekinn og fluttur til Haag í járnum. Eitt blaðanna hefur eftir heimildarmanni í stjórnsýslunni að ríkisstjórnin hafi lofað að framselja Mladic á miðvikudag. Framsal bæði á Mladic og Karadzic er forsenda fyrir því að Serbía komist aftur í samfélag þjóðanna með hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu og NATO.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×