Erlent

Miklar deilur á leiðtogafundi ESB

Það logar stafna á milli á leiðtogafundi Evrópusambandins sem hófst í Brussel í gær. Samþykkt stjórnarskrársáttmála sambandsins hefur verið slegið á frest um óákveðinn tíma og nú er hart tekist á um fjárframlög þjóðanna í sameiginlega sjóði. Stefnt hafði verið að því að allar 25 aðildarþjóðirnar myndu samþykkja stjórnarskrársáttmálann fyrir nóvember á næsta ári, sáttmálann sem leiðtogar þjóðanna hafa allir undirritað. Almenningur í Frakklandi og Hollandi setti þó strik í reikninginn og kolfelldi hann í þjóðaratkvæðagreiðslu og ljóst varð að staðfestingarferlið rynni ekki jafn ljúflega í gegn og leiðtogarnir höfðu vonað. Niðurstaða gærdagsins um að fresta yrði staðfestingarferlinu varð til þess að hver forsætisráðherrann á fætur öðrum hefur komið fram og tilkynnt að það sama gilti um fyrirhugaðar þjóðaratkvæðagreiðslur. Danmörk, Írland, Portúgal og Lúxembúrg er í þeim hópi. Hvort eða hvenær staðfestingarferli stjórnarskrár Evrópusambandsins hefst að nýju er því á huldu. Í dag leggjast leiðtogarnir yfir fjárframlög þjóðanna til sambandsins fyrir árin 2007 til 2013 og mætast þar stálin stinn. Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretalands, kom því til leiðar fyrir 21 ári að Bretar nytu afsláttar af greiðslum í sjóði sambandsins. Tony Blair, núverandi forsætisráðherra, ætlar ekki að gefa hann eftir þrátt fyrir mikinn þrýsting, nema dregið verði úr landbúnaðarstyrkjum til Frakka. Það segir Jacques Chirac Frakklandsforseti hins vegar ekki koma til greina svo fátt bendir til að samkomulag um sameiginleg fjármál náist á fundi leiðtoganna í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×