Erlent

Náðu ekki yfirhöndinni á fundi

Hvalveiðisinnum mistókst í morgun að ná yfirhöndinni á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Suður-Kóreu. Veiðisinnar urðu undir í atkvæðagreiðslu um breytingar á starfsemi Alþjóðahvalveiðiráðsins en japanska sendinefndin lagði til að atkvæðagreiðslur um tillögur yrðu framvegis leynilegar. Aðeins þremur atkvæðum munaði. Hvalverndunarsinnar segja þó of snemmt að fagna sigri því þrjár þjóðir sem nýlega gengu í ráðið, Gambía, Tógó og Nárú, sem virðast styðja veiðar, greiddu ekki atkvæði þar sem þær höfðu ýmist ekki greitt félagsgjöldin eða fulltrúar þeirra voru ekki komnir á fundinn. Atkvæðagreiðslur gætu því farið á annan veg síðar í vikunni. Ástæða þess að veiðisinnar vilja leynilegar atkvæðagreiðslur er sú að ýmsar Afríkuþjóðir og þjóðir í Karíbahafinu sem styðja hugmyndir Japana telja sig þar með losna við þrýsting andstæðinga hvalveiða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×