Erlent

Engin skömm fyrir ESB

Tony Blair segir enga skömm felast í því fyrir Evrópusambandið að fara í gegnum endurnýjun, nú þegar nærri fimmtíu ár séu liðin frá stofnun þess. Forsætisráðherrann sagði í morgun að endurskilgreina verði sambandið í grundvallaratriðum. Blair lét þessi orð falla á fundi Evrópuþingsins í Brussel í morgun. Hann hvatti aðildarþjóðir Evrópusambandsins til þess að líta á slíka endurnýjum sem tækifæri til að mæta þeim áskorunum sem fælust í breyttu alþjóðasamfélagi og því sem hnattvæðingin hefði leitt af sér. Blair sagði að vegna stjórnarskrár- og fjármálakreppu ESB væri nú tækifæri til þess að taka sambandið til endurskoðunar í grundvallaratriðum. Rangt væri að að hamra í sífellu á því að Evrópusambandið yrði annað hvort sambandsríki eins og Bandaríkin eða einungis viðskiptabandalag, enda kölluðu nýir tímar á það að menn létu af svo svart-hvítri hugsun. Bretar taka við forsæti innan Evrópusambandsins um næstu mánaðamót. Á fundi sínum með Evrópuþinginu sagði Blair að sambandið stæði frammi fyrir pólitískri leiðtogakreppu og að ekki ætti að saka þá, sem vildu breytingar á því, um að hafa svikið Evrópuhugsjónina. Hann sagði að tími væri kominn til að viðurkenna að einungis með breytingum gæti Evrópa öðlast styrk sinn, hugsjónir og stuðning fólksins á nýjan leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×