Erlent

Forsetinn viðurkennir mistök

Gloria Arroyo, forseti Filippseyja, viðurkenndi í dag að hún hefði gert mistök með því að hringja í kjörstjórnarmeðlim fyrir forsetakosningarnar og segjast óska þess að hún ynni með milljón atkvæða mun. Hún ætlar samt ekki að segja af sér. Forsetakosningar fóru fram á Filippseyjum í maí í fyrra. Fyrir þremur vikum komust fjölmiðlar yfir upptökur af símtali Arroyos og kjörstjórnarmeðlims þar sem hún lagði áherslu á að hún vildi gjarnan vinna með milljón atkvæða mun. Sá heitir Garcillano og sagðist myndu gera sitt besta. Stjórnarandstaðan krafðist þegar afsagnar Arroyos. Arroyo sagði í sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar í dag að hún gerði sér grein fyrir að símtal af þessu tagi væri dómgreindarbrestur og henni þætti þetta leitt. Hún harmaði einnig að hafa beðið svona lengi með að tjá sig um málið og sagðist bera fulla á byrgð á gerðum sínum. Arroyo vann aðalkeppinaut sinn, Fernardo Poe, með meira en milljón atkvæða mun. Hún hefur setið á forsetastóli á Filippseyjum í fjögur ár og á fimm ár eftir af þessu kjörtímabili. Ekki voru allir ánægðir með ávarp forsetans og ákvörðun Arroyos um að sitja áfram. Enda segir stjórnarandstaðan málinu hvergi nærri lokið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×