Innlent

Hættir sem formaður

Ráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins grunar að Davíð Oddsson tilkynni að hann hætti sem formaður flokksins síðar í dag. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur verið boðaður á fund nú síðdegis af tilefni, sem ekki var gefið upp við boðunina, og þó sat þingflokkurinn á fundi síðast í gær. Hvorki ráðherrar né óbreyttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem fréttastofa Bylgjunnar og Stöð 2 hefur talað við, segjast vita hvert fundarefnið sé og þeim ber ekki alveg saman um tímasetningu fundarins. Einn þeirra sagði hins vegar að alla grunaði þá það sama, stórtíðindi, að Davíð Oddsson gefi yfirlýsingu um pólitíska framtíð sína. Enginn ímyndi sér að Davíð Oddsson láti kalla saman þingflokkinn aftur, daginn eftir þingflokksfund, til að skýra frá því að hann hyggist halda áfram sem formaður flokksins. Því liggi beinast við að halda að hann ætli að víkja sem formaður Sjálfstæðisflokksins, embætti sem hann hefur gegnt frá árinu 1991. Sá kvittur hafði borist út í fyrradag að Davíð Oddsson myndi lýsa einhverju yfir um framtíð sína á Varðarfundi þá um kvöldið. Það varð ekki og í gær sátu þeir saman, formenn stjórnarflokkanna, Davíð og Halldór Ásgrímsson, ásamt varaformönnum sínum, og kynntu á blaðamannafundi hvernig tekjunum af Landssímasölunni yrði varið, bæði í meiri háttar framkvæmdir og greiðslu erlendra skulda. Davíð lyki þannig formannsferli sínum á hárri nótu. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn eftir rífan mánuð, 13. til 16. október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×